Morðin í Mexico

Grein þessi var rituð vegna heimsóknar Mariselu Ortiz Rivera til Íslands í mars sl. og erindis hennar um morð á 370 konum og hvarf um 400 annarra í borginni Ciudad Juárez í Mexico um 14 ára skeið. Ég hafði ekki hugmynd um þennan hrylling fyrr en ég las viðtal við hana í Morgunblaðinu og ákvað þá að lýsa minni ferð frá 1979. Af óviðráðanlegum ástæðum féll þessi inngangur niður á bloggsíðunni.

ÁRIÐ 1979 fyrir páska lagði ég leið mína til New Mexico í Bandaríkjunum ásamt eiginkonu minni og tveimur eldri sonum. Erindið var að heimsækja bæinn Alamogordo, en þar hafði kona mín sem ung stúlka unnið á veitingastað við þjóðveginn í eitt ár, átti hún því góða vináttu við við fólk í Alamogordo.

Ferð okkar um Bandaríkin varði 6 vikur, allt til Mexico og endaði norður í Bridgeport, Connecticut, þar sem móðursystir eiginkonu minnar bjó ásamt manni sínum og fjölskyldu. Við ákváðum að eyða einni viku um páska sunnan landamæranna milli Texas og Mexico í borginni Ciudad Juárez, Mexico, en kona mín hafði áður farið með vinafólki sínu suður yfir landamærin í gjörólíkt umhverfi. Ég hafði tekið bílaleigubíl í Alamogordo og heimsótt m.a. undurfallegt verndarsvæði Mescalerosindíána (Apashe ættbálkur) en þeir eru þekktir fyrir að brosa aldrei. Ég fékk að skoða lögreglustöð þeirra og fangahús. Samfélagið hafði til staðar þrjú rými fyrir fanga, þá sem drukkið höfðu of mikið eldvatn, þá sem fengu gæsluvarðhald og síðan úttektarfangelsi. Þessi stjórnsýsla var í miðjum dalnum og kynntist ég indiánavarðstjóra í lögreglunni. Indiánarnir fengu bætur frá ríkinu eftir kynstyrk, fullkominn indiáni fékk 100 % bætur, hálfur helming og 1/4 eftir því. Þeir sem voru með fullar bætur áttu erfiðast, drukku meira áfengi og fórust í vegköntum. Hinir komust betur af, en atvinnuleysi og tilgangsleysi þessa duglega fólks var mikið. Við heimsóttum einnig Billy the Kid og sýslumanninn upp í fjöllin.

Ég bað um bílaleigubíl í viku um páska til Mexico. Yfirmaðurinn sagði að ég fengi ekki bíl. Ef bílnum yrði ekki öllum stolið, væru farnar af honum hurðirnar, öll dekk, vélin og drifsköft þegar við kæmum að honum aftur eftir 2-3 tíma. Hann sagði að ég gæti leigt bíl í Texas fyrir þessa ferð, með því að staðgreiða andvirði bílsins og endurgreitt við heimkomu, en ekki hjá sér. Vinkona eiginkonu minnar ók okkur um eyðimörkina í New Mexico að El Paso í Texas, þaðan yfir hina frægu á, Rio Grande sem var þurr um þessar mundir, en hún er landamæri á þessum stað milli Bandaríkjanna og Mexico. ( South of the border) Við fengum hótel með upphitaðri laug sem var skemmtileg fyrir strákana inni í Ciudad Juáres. Mexicanarnir sem komu með fjölskyldur sínar ofan frá Chihuaha í páskaleyfi horfðu allir í hina áttina þegar þeir mættu okkur á hótelsvæðinu. Þeir héldu að við værum hinir hötuðu Gringos frá Bandaríkjunum. Þeir áttu í okkur hvert bein er þeim var ljóst að við værum norðan úr höfum, létu passa drengina og buðu okkur á diskótek.

Ég bað hótelstjórann um bílaleigubíl. Mig langaði að fara með fjölskylduna í dagsferð um sveitirnar og hafa skemmtilegan dag fyrir strákana. Hann horfði á mig og sagði, gerðu það ekki. Taktu leigubíl. Ég spurði hvort það væri svona mikið af ræningjum í sveitunum. Hann sagði nei,ekki þeir, það er lögreglan. Lögreglan þekkir bílaleigubílinn ykkar, stöðvar þig og setur ykkur öll inn, drengina líka. Ég get lofað þér því, að þegar þeir senda ykkur yfir Rio Grande til Bandaríkjanna hafa þeir náð af ykkur hverjum einasta dollar sem þú hefur meðferðis. (Á þessum tíma voru kreditkort ekki innleidd á Íslandi, nema erlendis frá og ég hafði alla mína peninga falda í fóðri inni á jakka eða í öryggishólfi) Ég tók leigubíl og lofaði leigubílstjóranum að taka ekki myndir í verslunargötunni. Ég rauf loforðið og tók mynd út um hliðargluggann. Múgur og margmenni réðist á bílinn og hann komst naumlega undan. Ég bað bílstjórann margfaldlega afsökunar, en fólk hélt enn að þarna væru Gringos á ferð. Við strákarnir fórum á nautaat á páskadag í þessum kaþólska bæ og það voru drepin 8 naut. Þetta var International, nautabanar frá Mexico, Venezuela og Bandaríkjunum. Með andláti nautanna leið yfir nokkrar bandarískar konur í áhorfendabekkjum.

Á föstudaginn langa var einn mexicani hýddur og hengdur upp á kross við kaupfélagið, sem við versluðum í. Þetta sáum við í sjónvarpinu á hótelinu. Reyndar var ætíð vopnaður lögreglumaður í kaupfélagsdyrunum, þegar við komu að versla.

Ég fann í þessari ferð að borgin var engan veginn örugg, hvorki fyrir mig og fjölskyldu mína, né almenna borgara. Mexikanarnir voru okkur mjög alúðlegir og hjálpsamir, en mér var ljóst að hættan leyndist við hvert horn. Við tókum leigubíl yfir Rio Grande á annan í páskum og rútu frá El Paso til Alamogordo. Rútan var stöðvuð af bandarísku landamæralögreglunni í eyðimörkinni um nóttina, og synir okkar teknir sérstaklega fyrir ásamt öðrum, þeir voru 9 og 12 ára. Ég sendi kveðju til Ciudad Juárez og Mariselu Ortiz Rivera.

Höfundur er f.v. lögreglumaður.


Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband